Umhverfis- og samgöngumál

Umhverfis- og samgöngumál

Samfylkingin er umhverfisvænn flokkur sem leggur áherslu á öflugt atvinnulíf og nýsköpun í sátt við náttúruna. Mikilvægt er að fylgja eftir áætlunum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Liður í því að setja umhverfismál í öndvegi eru bættar almenningssamgöngur enda mikilvægt að mæta fólksfjölgun komandi áratuga með öðrum valkostum en einungis einkabílnum.

Sveitarfélög ættu að beita sér í þágu umhverfisvænna og sjálfbærra lausna og ganga fram með góðu fordæmi í umhverfismálum. Það mætti m.a. gera með því að halda mengun í lágmarki og stunda umhverfisvöktun, draga úr myndun úrgangs með ábyrgum innkaupum, neyslu og aukinni endurvinnslu.

Umhverfisfræðslu þarf að efla og bæta aðgengi að upplýsingum og auðvelda bæjarbúum að nýta sér þær.  Einnig er mikilvægt að tryggja gott og jafnt aðgengi til útiveru og útivistar fyrir alla bæjarbúa.

Stórefla þarf almenningssamgöngur og hlut gangandi og hjólandi þarf að bæta til muna í bæjarlandinu.  Einnig þarf að bæta umferðarflæði í gegnum bæinn og efla öryggi allra vegfarenda.

Við Hafnfirðingar eigum fjársjóð í upplandinu okkar og margar útivistarperlur. Við leggjum áherslu á að stuðla að útivist og efla lýðheilsu með ýmsu móti s.s. fleiri hjólastígum, betri aðstöðu við vinsælar gönguleiðir.

Mikilvægt er að halda uppi þrýstingi um umbætur á Reykjanesbraut þar sem hún liggur í gegnum Hafnarfjörð. Umferðarþungi á Reykjanesbraut hefur aukist mikið vegna fjölgunar íbúa sem og aukins ferðamannastraums. Reykjanesbrautin klýfur bæinn í tvennt og slysahætta þegar íbúar þurfa að þvera brautina til að sækja verslun og þjónustu er mikil. Umferðarþunginn hefur orðið til þess að fleiri aka í gegnum íbúðarhverfi í grennd við brautina þar sem víða er 30 km hámarkshraði. Allt þetta skapar mikla hættu. Brýnast er að ljúka tvöföldun á kaflanum frá Kaldárselsvegi að gatnamótum við Krýsuvíkurveg. Ekki síður mikilvægt er gera endurbætur á tveimur gatnamótum á vegkaflanum frá Kaplakrika að Lækjargötu.

Á næstu fjórum árum viljum við …

 • vinna eftir markvissri og aðgerðabundinni umhverfisstefnu þar sem forgangsröðun verkefna er skýr og vel fjármögnuð.
 • setja fram metnaðarfulla stefnu til verndunar vatnsbóla í upplandi Hafnarfjarðar.
 • standa betur að fegrun bæjarins og almennum þrifum um allan bæ, fjölga ruslatunnum og stuðla að betri umhirðu þeirra.
 • berjast fyrir varanlegri lausn á umferðarflæði um Reykjanesbraut í gegnum Hafnarfjörð í samstarfi við ríkið. Að brautin verði sett stokk á milli Hlíðartorgs og FH- Torgs.  Einnig þarf að tvöfalda brautina sem fyrst frá Kaldársselsvegi að Krýsuvíkurvegi.
 • koma á samgöngusamningum fyrir starfsfólk Hafnarfjarðar.
 • efla almenningssamgöngur með Borgarlínu og öflugu innanbæjarkerfi strætó.
 • fjölga rafhleðslustöðvum í bænum og hefja rafvæðingu bílaflota í eigu stofnana bæjarins.
 • gera stórátak í að bæta göngu- og hjólastíga í bæjarlandinu og tengingar þeirra við önnur bæjarfélög.
 • stofna til hönnunarsamkeppni um gömlu sundhöllina
 • fara í gagngerar endurbætur á Suðurbæjarlaug
 • bæta aðstöðu fyrir útivistarfólk í upplandi Hafnarfjarðar.
 • útrýma plasti í starfsemi bæjarfélagsins. Bærinn fari þar fram með góðu fordæmi.
 • bæta aðgengi og aðstöðu við Hvaleyrarvatn svo allir bæjarbúar geti notið þeirrar náttúruperlu allan ársins hring.
 • að efla Krýsuvík sem útivistar- og ferðamannasvæði með frekari uppgræðslu og skógrækt í góðri samvinnu við opinbera aðila, frjáls félagasamtök og sjálfboðaliða.
 • varðveita Óla Run tún sem grænt fjölskyldusvæði.
 • fegra og bæta Hellisgerði fyrir 100 ára afmæli hans árið 2022 og koma á fót kaffihúsi að hætti Flóru í Laugardalnum
 • koma á hjólaleigu í miðbæ Hafnarfjarðar í samvinnu við fyrirtæki í bænum.
 • styðja við öfluga umhverfisfræðslu í skólum bæjarins.
 • reka öfluga umhverfisvöktun með hágæðamælingum á mengun í umhverfinu.
 • draga úr sóun í bæjarfélaginu með öflugri sophirðu þar sem bærinn fer í fararbroddi m.a. með metnaðarfulltri sorpflokkunarstefnu í öllum stofnunum bæjarins.
 • bæta umhverfi grenndarstöðva og fjölga móttökuflokkum.
 • bæta vetrarþjónustu í hverfum bæjarins og hvetja þannig til þess að börn og fullorðnir fari styttri ferðir gangandi eða hjólandi allt árið.
 • bæta rafrænar upplýsingar á vefsvæði bæjarins um t.d. mokstur, hreinsun gatna, vorhreinsanir o.s.frv. þannig að fólk geti fylgst betur með.