Stórátak í þjónustu við eldri borgara

Á kjörtímabilinu sem nú er að líða hefur fólki 80 ára og eldri fjölga um 15% í Hafnarfirði. Talið er að allt að 20% fólk á þessum aldri hafi þörf fyrir húkrunarrými eða um 170 manns. Því miður hefur fjölgun hjúkrunarrýma ekki haldist í hendur við þessa þróun og engin aukning verið í tíð núverandi meirihluta. Þegar ný viðbygging verður tekin í notkun á Sólvangi bætast einungis þrjú hjúkrunarrými við, sem annar engan vegin eftirspurn. Einnig er fyrirsjáanleg fækkun hjúkrunarrýma hjá Hrafnistu þar sem verið er að fjölga einbýlum.

Af þessum ástæðum eru biðlistar langir eftir hjúkruarrými í Hafnarfirði og fólk bíður í allt að sex mánuði eftir úrlausn sinna mála. Þar sem þörfin er brýn þarf fólk að þiggja vistun utan bæjarfélagsins. Að sama skapi getur biðin eftir læknisviðtali hjá heilsugæslunni verið allt þrjár vikur. Töluverð uppbygging hefur verið á sama tíma í nágrannasveitarfélögunum og hjúkrunarrýmum fjölgað og bætt við heilsugæslustöðvum.

U-beygjan á Völlunum dýrkeypt

Mannfjöldaspár gera áfram ráð fyrir fjölgun eldri borgara. Núverandi meirihluti tók u-beygju eftir síðustu kosningar og tók út af borðinu uppbyggingu hjúkrunarheimilis á Völlunum, sem þá var í útboðsferli. Þessari uppbyggingu hefði einnig fylgt ný og glæsileg heilsugæsla, sem hefði stórefld alla heilbriðgisþjónustu fyrir alla aldurshópa. Eins og dæmin sína þá hægði þessi ákvörðun á frekari uppbyggingu hjúkrunarrýma og fyrirheit um aukningu eru ekki á teikniborðinu.

Baráttumál Samfylkingarinnar í Hafnarfirði  er að stórauka þjónustu við eldri borgara, sem tekur mið af þörfum hvers og eins. Samþætta heimahjúkrun og heimaþjónustu ásamt því að þrýsta á yfirvöld um frekari uppbyggingu hjúkrunarheimila og fjölga rýmum í dagþjónustu og úrræðum fyrir fólk með heilabilun.

Stefán Már Gunnlaugsson

Höf. skipar 4. sæti lista Samfylkingarinnar