Lýðræðisbærinn Hafnarfjörður

Yfirlitssíða um stefnumál

Ein af grunnstoðunum í stefnu Samfylkingarinnar er áherslan á lýðræði og vönduð vinnubrögð í stjórnsýslunni. Lýðræði er meira en bara kosningar á fjögurra ára fresti. Í því felst jafnframt möguleiki íbúanna á að hafa áhrif á milli kosninga.

Á árunum 2002-2014, var Hafnarfjörður leiðandi á meðal sveitarfélaga í lýðræðismálum og nýsköpun í stjórnsýslu. Á þessum árum voru stigin stór skref til aukinnar þátttöku íbúanna í mikilvægum ákvörðunum.

Ákvæði um að leggja beri stór mál í dóm kjósenda var bundið í samþykktir bæjarins árið 2002. Jafnframt var bæjarbúum tryggður réttur til að krefjast atkvæðagreiðslu um einstök mál.

Íbúalýðræði byggir þó ekki eingöngu á möguleika á að kjósa um mál á milli sveitarstjórnarkosninga. Það byggir ekki síður á samráði við íbúana áður en ákvarðanir eru teknar.

Á árunum 2002-2014 var komið á fót Öldungaráði, Ungmennaráði og notendaráði fatlaðs fólks. Önnur sveitarfélög fylgdu í kjölfarið. Nú hefur einnig verið stofnað fjölmenningarráð skipað íbúum af erlendum uppruna sem er bæjaryfirvöldum til ráðgjafar.

Ábyrg fjármálastjórnun og gagnsæ og skilvirk stjórnsýsla

Ábyrg fjármálastjórn er forsenda þess að vel takist til með stjórnun bæjarfélagsins. Samfylkingin leggur áherslu á ábyrga fjármálastjórn enda er hún forsenda þess að rekstur bæjarins gangi sem skyldi og að við getum staðið fyrir öflugum framkvæmdum í bænum.

Það er mikilvægt að stjórnsýsla Hafnarfjarðar sé gagnsæ og skilvirk. Stjórnsýslan verður með öðrum orðum að vera opin og lýðræðisleg. Hún verður einnig að vera fagleg og málaflokkar staðsettir þannig í stjórnsýslunni að tryggt sé að fjallað sé um það með faglegum hætti og þeir fái nægjanlegt rými innan stjórnsýslunnar.

Það er nauðsynlegt að stefnumótun til framtíðar og forgangsröðun framkvæmda sé ákveðin í samráði við íbúa og hagsmunaaðila og að hún byggi á traustum upplýsingum.

Við viljum nýta upplýsingatækni og nýjar aðferðir við framkvæmd íbúakosninga til að gefa bæjarbúum kost á að hafa áhrif á fleiri sviðum. Einnig verði skoðanakönnunum í auknum mæli beitt til að fá fram viðhorf fólks.

Kerfið er til fyrir fólkið í bænum og meginmarkmið þess á að vera að þjónusta íbúana. Kjörnir fulltrúar eru kosnir til þjónustustarfa fyrir bæjarbúa. Sama gildir um starfsfólk bæjarins.

Viðmið um árangur í rekstri bæjarfélagsins eiga að vera fjölbreytt. Við mælum árangur annars vegar út frá hefðbundnum hugmyndum um hagvöxt og góðan rekstur en einnig út frá mannlegum þáttum á borð við heilsu og vellíðan starfsfólks og bæjarbúa.

Á næstu fjórum árum ætlum við að:

 • leita markvisst eftir áliti bæjarbúa með opnum og fjölbreyttum íbúafundum, t.d. með svokölluðu þjóðfundarformi og tryggja virkt íbúasamráð með því að fá íbúa fyrr að borðinu í skipulagsvinnu,
 • halda íbúakosningar um stór og mikilvæg mál,
 • efla hverfin og stuðla að því að íbúar þeirra hafi meira um umhverfi þeirra að segja, t.a.m. með því að halda reglulega hverfafundi,
 • styðja markvisst við frjálsa fjölmiðla í bænum til að stuðla að opinni og lýðræðislegri umræðu um málefni bæjarfélagsins,
 • vinna að aukinni kjörsókn í bæjarfélaginu m.a. með því að fjölga kjörstöðum í bænum,
 • auka vægi ráðgjafaráða innan stjórnsýslu bæjarins,
 • efla mannauðsdeild bæjarins með það að markmiði að veita aukinn stuðning við stjórnendur í mannauðsmálum, þjónustu við starfsfólk, fræðslu og þjálfun sem svo skilar sér í bættri þjónustu til bæjarbúa,
 • tryggja góða upplýsingamiðlun frá bæjarfélaginu með fjölbreyttum hætti,
 • svara erindum skilmerkilega og fljótt og vel,
 • innleiða skilvirkar leiðir fyrir íbúa til að koma á framfæri kvörtunum vegna þjónustu,
 • auka gagnsæi í stjórnsýslunni m.a. með því að opna reikningshald bæjarins.

Yfirlitssíða um stefnumál

Create a website or blog at WordPress.com

%d bloggurum líkar þetta: