Frístundabærinn Hafnarfjörður

Yfirlitssíða um stefnumál

Öll börn og ungmenni eiga að geta stundað þær íþróttir og tómstundir sem þau hafa áhuga á óháð efnahagslegum aðstæðum þeirra. Við munum því áfram leita allra leiða til þess að draga úr kostnaði foreldra og forráðaðmanna vegna þátttöku barna og unglinga í skipulögðu frístundastarfi meðal annars með hækkun frístundastyrkja. Það hefur sýnt sig að þátttaka barna og unglinga í skipulögðu frístundastarfi er öflug forvörn og við viljum leita allra leiða til þess að minnka brottfall úr slíku starfi þegar komið er fram á unglingsárin.

Samfylkingin vill sjá fjölbreytta flóru félagasamtaka starfa að frístundamálum í bænum fyrir alla aldurshópa til að stuðla að fjölbreyttu tómstundastarfi. Við leggjum áherslu á gott samstarf við alla þessa aðila þar sem markmiðið er að tryggja tilveru- og rekstrargrundvöll allra svo flestir geti fundið sér frístundastarf við hæfi.

Við ætlum að auka samþættingu skóla- og íþróttastarfs í bænum. Það verður gert með því að flétta í auknum mæli frístundastarf barna og unglinga inn í skóladag þeirra og stefnt er að því að gera skóla- og frístundadag barna og unglinga eins samfelldan og mögulegt er.

Samfylkingin leggur mikla áherslu á að efla lýðheilsu í bænum. Liður í því er að skapa aðstöðu svo hreyfing og heilbrigður lífsstíll verði hluti af daglegu lífi og mikilvægt er að flétta þessa áherslu inn í skipulagsvinnu bæjarins.

Við ætlum efla starfsemi félagsmiðstöðva á næstu árum til þess að tryggja nægt framboð af fjölbreyttum tómstundum. Með öflugri starfsemi félagsmiðstöðva þar sem boðið er upp á fjölbreytta starfsemi og fjölbreytt hópastarf drögum við úr áhættuhegðun ungmenna í bænum. Einnig vill Samfylkingin efla enn frekar starfsemi Hamarsins, ungmennahúss, með það að leiðarljósi að ungmenni sem finna sig ekki í hefðbundnu frístundastarfi hafi samastað í bænum.

Við ætlum stórefla forvarnarstarf á vegum bæjarins en forvarnir og fræðsla skipta gríðarlegu máli því þær styrkja börn og ungmenni í því að gera heilbrigðan lífsstíl hluta af daglegu lífi sínu.

Á næstu fjórum árum ætlum við að:

 • hækka frístundastyrki fyrir börn og ungmenni um 20.000 kr. á ári, eða úr 54.000 kr. í 74.000 kr. og miða frístundastyrk við 5 ára aldur barna,
 • auka samfellu í námi og frístundum ungmenna og skoða það að flétta nám í Tónlistarskóla inn í skóladag nemenda,
 • vinna markvisst að því að ná til barna og ungmenna af erlendum uppruna og kynna fyrir þeim skipulagt frístundastarf,
 • efla frístundastarf fyrir eldri borgara m.a. til þess að sporna við félagslegri einangrun,
 • kanna möguleika á því að koma upp frumkvöðlasetri í Hafnarfirði þar sem markmiðið er að bjóða upp á vettvang þar sem einstaklingum og frumkvöðlum gefst tækifæri til að láta hugmyndir sínar verða að veruleika,
 • auka aðgengi ungs fólks að hvers kyns skapandi greinum innan bæjarins, bæði innan skólakerfisins og í frístundastarfi,
 • vinna að því að því frístundabíllinn verði aðgengilegur fleiri aldurshópum og lögð áhersla á að hann verði aðgengilegur fyrir 12 ára börn og yngri,
 • stórefla forvarnarstarf í samstarfi við börn og unglinga og skoða kosti þess að endurvekja forvarnarnefnd,
 • leggja áherslu á skaðaminnkandi nálgun í þjónustu við fólk með fíknisjúkdóma,
 • tryggja aðgengi fyrir fatlað fólk að íþróttamannvirkjum sem og að útivistarperlum í bæjarlandinu og auka aðgengi fatlaðra barna að hvers kyns frístundastarfi,
 • reisa reiðhöll á æfingasvæði Sörla,
 • reisa knatthús á íþróttasvæði Hauka á Ásvöllum,
 • styðja við uppbyggingu skíðasvæðis og skautasvells fyrir börn og ungmenni í bænum,
 • fjölga grænum svæðum m.a. á Völlunum og huga betur að þeim sem fyrir eru, þar sem hægt er stunda útivist og heilsurækt enda er Hafnarfjörður heilsubær,
 • halda áfram að merkja fjölbreyttar göngu – og hjólreiðaleiðir innan Hafnarfjarðar, t.d. með auknu aðgengi með hugbúnaðarlausnum eins og appi,
 • fjölga tækifærum bæjarbúa til fjölbreyttrar útiveru, t.d. með því að bæta aðstöðu við Hvaleyrarvatn, styðja við starfsemi í Bláfjöllum og bæta sjósundsaðstöðu í bænum,
 • vinna að því að gera svæðið í kringum lækinn að enn betra útivistarsvæði,
 • standa vörð um og efla starfsemi félagsmiðstöðva og fjölga fagmenntuðu starfsfólki í öllu frístundastarfi,
 • standa vörð um og efla starfsemi Ungmennahúss Hamarsins og starfsemi eins og Músík og Mótor, m.a. til þess að ná til þeirra ungmenna sem hætta í framhaldsnámi,
 • efla vinnuskólann í bænum meðal annars með að því tryggja ungmennum sem vinna við hann samkeppnishæf laun miðað við önnur sveitarfélög.

Yfirlitssíða um stefnumál

Create a website or blog at WordPress.com

%d bloggurum líkar þetta: