Velferðarstefna jafnaðarmanna hvílir á félagslegu réttlæti og jöfnuði. Öflug velferðarþjónusta eru forsenda réttláts samfélags og hún skapar öryggi og efnahagslegan stöðugleika. Samfylkingin ætlar að leita allra leiða til þess að lækka álögur á fjölskyldur í bænum.
Samfylkingin leggur áherslu á að öll þjónusta grundvallist á virðingu fyrir sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétti hvers einstaklings. Ekki síst á þessi nálgun við í málefnum fatlaðs fólks og við viljum halda í heiðri kjörorðum ÖBÍ – Ekkert um okkur án okkar.
Við viljum stórátak í hvers kyns forvarnarmálum og leggjum mikla áherslu á að gera betur í geðheilbrigðismálum. Hafnarfjörður á skipa sér í forystu þegar kemur að geðheilbrigðismálum og á að leggja áherslu á að starfsfólk bæjarins sem kemur að þjónustu við þennan hóp hafi þjálfun og úrræði til þess að leysa verkefnin vel af hendi.
Húsnæðismál eru velferðarmál
Eitt stærsta verkefni jafnaðarmanna frá upphafi hafa verið húsnæðismál enda húsnæðisöryggi öllum fjölskyldum mikilvægt. Ráðast verður í kraftmiklar aðgerðir strax vegna ástandsins á húsnæðismarkaði til að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegum kjörum.
Við munum leggja áherslu á uppbyggingu fjölbreyttra íbúða enda verður uppbygging nýrra lausna að mæta þörfum allra hópa. Mikilvægt er að huga að ungu fólki sem er að koma sér upp sínu fyrsta húsnæði og bæjarfélagið þarf að tryggja nægt framboð af fjölbreyttum lóðum. Einnig verður að huga sérstaklega að nýrri uppbyggingu íbúða fyrir eldri borgara í bænum.
Í uppbyggingu nýrra hverfa leggja jafnaðarmenn mikla áherslu á að hækka hlutfall félagslegra íbúða hjá sveitarfélaginu. Einnig á Hafnarfjarðarbær að taka höndum saman við félög launþegahreyfingarinnar, sem ekki eru rekin í hagnaðarsjónarmiði, um uppbyggingu leiguíbúða á viðráðanlegum kjörum. Í Hafnarfirði á að byggjast upp öruggur leigumarkaður samhliða fjölbreyttri uppbyggingu íbúða fyrir ungt fólk, fjölskyldufólk, fyrstu kaupendur, eldri borgara og annarra á húsnæðismarkaði.
Á næstu fjórum árum ætlum við að:
- tryggja hagkvæmt húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur,
- byggja upp öruggan leigumarkað samhliða uppbyggingu annarra húsnæðiskosta,
- byggja upp þjónustuíbúðir fyrir eldri borgara í námunda við heilsugæslu og aðra þjónustu, hafist verður handa við uppbyggingu slíkra íbúða á Sólvangssvæði,
- taka höndum saman við félög sem ekki eru rekin í hagnaðarsjónarmiði um uppbyggingu á stúdentaíbúðum, íbúðum fyrir aldraða og tekjulágar fjölskyldur og einstaklinga,
- fjölga félagslegum íbúðum sveitarfélagsins m.a. með því að hækka hlutfall þeirra þegar ný hverfi eru skipulögð,
- gera stórátak í húsnæðismálum fatlaðs fólks með því að fjölga búsetuúrræðum og stytta biðlista eftir húsnæði,
- efla þjónustu og fjölga úrræðum fyrir utangarðsfólks, m.a. í húsnæðismálum,
- þrýsta á um nýja heilsugæslu og nýtt hjúkrunarheimili á Völlunum,
- berjast fyrir eflingu heilsugæslunnar og fjölgunar heimilislækna í bænum,
- efla heimaþjónustu fyrir eldri bæjarbúa og sníða þjónustuna að þörfum hvers og eins til að tryggja virkni þeirra og gera fólki kleift að búa sem lengst í heimahúsum,
- styðja við virkni eldri bæjarbúa í samfélaginu og fjölga tækifærum þeirra til félagslegra samskipta og tryggja þeim heilsueflandi umhverfi,
- standa vörð um og efla tómstundastyrk eldri borgara,
- Efla bókasafn Hafnarfjarðar sem samfélagsmiðstöð til að stuðla að sjálfbærni og efla hringrásarhagkerfið, vinna gegn félagslegri einangrun og styðja við heilsueflandi samfélag,
- halda áfram fjölga NPA samningum hjá bæjarfélaginu og tryggja það að taxtar vegna samninganna verði hækkaðir til samræmis við útreikninga NPA miðstöðvarinnar,
- gera Hafnarfjörð að fyrirmyndarbæ í aðgengismálum þannig að bærinn verði aðgengilegur fyrir alla,
- gera Hafnarfjörð að fyrirmyndarbæjarfélagi þegar kemur á geðheilbrigðismálum, m.a. með því að berjast fyrir fjölgun sálfræðinga í skólum og heilsugæslum,
- gera stórátak í forvarnarmálum, sem lúta m.a. að forvörnum gegn eiturlyfjum, áfengi og hvers kyns ofbeldi,
- auka aðgengi nýrra Íslendinga í Hafnarfirði að íslensku – og móðurmálsnámi,
- efla þjónustu við nýja Íslendinga meðal annars með gerð móttökuáætlunar,
- efla enn frekar ráðgjafaráð í málefnum fatlaðs fólks, öldungaráð og fjölmenningarráð því virkt samráð við notendur er grundvallarmál,
- auka upplýsingagjöf um hvaða stuðningur er í boði fyrir tekjulágar fjölskyldur,
- lækka álögur á fjölskyldur í Hafnarfirði og móta aðgerðaáætlun í þágu fátækra barna.