Atvinnu-, menningar- og ferðamál

Yfirlitssíða um stefnumál

Öflugt atvinnulíf og fleiri ferðamenn

Samfylkingin vill styðja við atvinnuuppbyggingu í bænum með markvissum hætti, standa vörð um þá atvinnustarfsemi sem er í bænum í dag og laða ný atvinnutækifæri til bæjarins. Við viljum sérstaklega styðja við nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi með myndarlegum hætti. Jafnaðarmenn vita hversu mikilvægt samspil öflugs atvinnulífs og velferðarkerfis er.

Nú þegar ferðamannastraumur eykst á nýjan leik eftir Covid-19 faraldurinn er mikilvægt að fara í markvissa stefnumótun fyrir Hafnarfjörð til þess að gera bæinn að eftirsóknarverðum áfangastað fyrir ferðamenn. Við eigum miklar útivistarperlur sem þarf að hlúa að og byggja upp. Upplandið okkar er mikill fjársjóður og Krýsuvíkursvæðið er orðið vinsæll áningarstaður ferðamanna á leið þeirra um Reykjanes. Við viljum skerpa á ímynd bæjarins sem útivistarparadísar og byggja upp aðstöðu á þeim stöðum sem fólk sækir hvað mest. Við viljum efla samvinnu bæjaryfirvalda, íþróttafélaga og ferðaþjónustuaðila um menningar-, heilsu- og umhverfistengda ferðaþjónustu.

Iðandi menningarlíf

Bær sem hlúir að menningu, mannlífi og listsköpun er blómstrandi bær. Því vill Samfylkingin gera menningu og listum hátt undir höfði. Við viljum standa vörð um menningarstofnanir bæjarins og að bærinn styðji markvisst við frumkvæði og nýsköpun á menningarsviðinu.

Á næstu fjórum árum ætlum við að:

 • efla samstarf við fulltrúa atvinnulífs í bænum með það að markmiði að tryggja gagnkvæmt upplýsingastreymi,
 • styðja við starfsemi Markaðsstofu Hafnarfjarðar enda mikilvægt að kynna vel þjónustu og starfsemi atvinnulífs í Hafnarfirði í samstarfi við fyrirtæki í bænum,
 • efla samvinnu bæjaryfirvalda við fyrirtæki og samtök í bænum sem tengjast menningu og ferðaþjónustu,
 • styðja við frumkvöðlastarfsemi á sviði atvinnu,-menningar- og ferðamála og stofna klasa sem verður vettvangur fyrir frumkvöðla- og nýsköpunarfyrirtæki,
 • efla markaðssetningu á Hafnarfirði sem áhugaverðum stað fyrir ferðamenn til að heimsækja allt árið um kring þar sem lögð er áhersla á sérstöðu bæjarins,
 • efla menningarlíf í bænum í samstarfi við fyrirtæki og frjáls félagasamtök sem starfa á þessum vettvangi,
 • virkja miðbæinn og stuðla að frekari uppbyggingu á Flensborgarhöfn og auka þannig fjölbreytileika og afþreyingu í bænum,
 • tryggja farveg fyrir atvinnu- og áhugamannaleikhús í bænum,
 • leysa húnsæðismál Gaflaraleikhússins til framtíðar,
 • stuðla að því að Hafnarfjörður verði í forystu hvað varðar atvinnuþátttöku fatlaðs fólks og fólks með skerta starfsgetu, bæði hjá sveitarfélaginu sjálfu sem og á almennum vinnumarkaði,
 • stuðla að því að eldri borgarar sem hafa áhuga á atvinnuþátttöku hafi fleiri tækifæri til þess að stunda atvinnu,
 • auka afþreyingar- og útivistarmöguleika fyrir bæjarbúa m.a. með því að nýta opin svæði eins og Óla Run túnið.

Yfirlitssíða um stefnumál

Create a website or blog at WordPress.com

%d bloggurum líkar þetta: