Skólamál

Fjölbreytni og jöfn tækifæri í skólastarfi

 Menntastefna Samfylkingarinnar byggir á rótgrónum gildum um jöfnuð, félagslegt réttlæti og mannréttindi. Skólarnir okkar eru ein af grunnstoðum samfélagsins, þar sem við tryggjum börnum og ungmennum jöfn tækifæri til menntunar og þroska, virkjum styrkleika þeirra og kveikjum hjá þeim áhuga til sköpunar og frumkvæðis. Þess vegna leggjum við áherslu á skóla sem byggja á lýðræði, mannréttindum og jafnrétti, skóla sem fagnar fjölbreytileikanum og rúmar öll börn.

 

Jöfn tækifæri

Efnahagur má aldrei ráða möguleikum til menntunar og liður í árangursríku skólastarfi er að tryggja öllum nemendum jöfn tækifæri. Skóli án aðgreiningar á að standa öllum til boða, skóli sem hvetur og styður alla nemendur með jöfnuð og umburðarlyndi að leiðarljósi. Nemendur eiga að fá að þroskast í öruggu og mannbætandi umhverfi til að ná sínum besta mögulega árangri.

Samfylkingin vill draga úr álögum á barnafjölskyldur. Þess vegna viljum við draga úr gjaldtöku og stefna að því að leik- og grunnskólar verði gjaldfrjálsir með öllu. Einnig er mikilvægt að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla með því að lækka inntökualdur á leikskóla og fjölga ungbarnaleikskólum.

Við fögnum nýsköpun og fjölbreytni í rekstri og starfi leik- og grunnskóla en leggjum áherslu á að allir hafi jafnan aðgang, óháð efnahag, og að kröfur um gæði, hagkvæmni og öryggi séu skýrar og þeim fylgt eftir með markvissum hætti. Mikilvægt er að réttindi allra barna til náms, kennslu og sérfræðiþjónustu séu í öllum tilvikum tryggð.

 

Fjárfestum í menntun – til framtíðar

Samfylkingin leggur áherslu á að börnum standi til boða fjölbreytt val í skólastarfi m.a. með því að auka vægi list-, verk- og tæknigreina. Mikilvægt er að undirbúa nemendur undir þá tæknibyltingu sem samfélagið stendur frammi fyrir og í því samhengi þarf að leggja áherslu á tölvufærni og tækninám ásamt því að örva skapandi og gagnrýna hugsun.

Við teljum að skólarnir okkar verði best efldir innan frá með því að virkja þann mannauð og sköpunarkraft sem býr í starfsfólki og nemendum hvers skóla. Þess vegna viljum við efla faglegt sjálfstæði skólanna og auka svigrúm þeirra til að móta eigin stefnu. Við viljum tryggja gott faglegt umhverfi sem laðar að gott starfsfólk á öllum skólastigum. Mikilvægt er að samhliða lækkun inntökualdurs á leikskóla verði tryggt gott og aðlaðandi umhverfi fyrir þá sem þar starfa.

Mikilvægt er að stefna að aukinni vellíðan barna og ungmenna í hröðu nútímasamfélagi. Það gerum við með m.a. með fjölgun fagfólks í skólum og öflugu samstarfi milli allra skólastiga. Samstarf heimila og skóla er mikilvægt og  vert er að leggja áherslu á styttingu vinnuviku sem getur aukið  samverustundir fjölskyldna. Við viljum innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í alla stefnumótun og vinna að því að Hafnarfjörður fái vottun UNICEF sem barnvænt samfélag.

 

Á næstu fjórum árum viljum við …

 • tryggja öllum börnum leikskóladvöl frá 12 mánaða aldri
 • bæta kjör og starfsumhverfi leikskólakennara ásamt því að auka tækifæri til menntunar og starfsþróunar
 • innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í starf, reglur, samþykktir og stefnur bæjarins í samstarfi við UNICEF og gerast þannig barnvænt samfélag
 • fjölga ungbarnadeildum og/eða ungbarnaleikskólum
 • efla skapandi greinar og hreyfingu í leikskólum m.a. með íþrótta- og myndlistakennslu
 • tryggja gott og faglegt umhverfi sem laðar að gott starfsfólk á öllum skólastigum
 • vinna að leiðum til að draga úr álagi á starfsfólk leik- og grunnskóla
 • efla samstarf milli skólastiga
 • tryggja aukið sjálfstæði skóla og svigrúm þeirra til að móta sína eigin stefnu
 • auka svigrúm og fjölbreytni í skólastarfi svo mæta megi styrkleikum og áhuga hvers og eins – aukin áhersla á skapandi greinar, list-, verk- og tæknigreinar og efla frumkvöðlamennt
 • hefja strax byggingu leikskóla í suðurbæ (Öldutúnsskólahverfi)
 • opna Kató aftur sem ungbarnaleikskóla
 • stefna að þróunarverkefni um styttingu vinnuviku til að auka samverustundir fjölskyldna
 • taka skref í átt að gjaldfrjálsum leik- og grunnskóla
 • efla geðheilbrigðisþjónustu og forvarnir með auknu aðgengi að sálfræðiþjónustu, náms- og starfsráðgjöf
 • efla móðurmálskennslu fyrir börn af erlendum uppruna
 • vinna að því að auka lýðræðisvitund barna og ungmenna
 • auka forvarnarfræðslu