Menning og ferðaþjónusta

Menning og ferðaþjónusta

Bær sem hlúir að menningu, mannlífi og listsköpun er blómstrandi bær. Því vill Samfylkingin gera menningu og listum hátt undir höfði. Við viljum standa vörð um menningarstofnanir bæjarins og að bærinn styðji markvisst við frumkvæði og nýsköpun á menningarsviðinu.

Samfylkingin vill taka til endurskoðunar skipulag menningarmála og auka vægi málaflokksins með því að hafa fagskipað menningar- og listráð sem hluta af stjórnkerfi bæjarins.

Við viljum efla samvinnu bæjaryfirvalda, íþróttafélaga og ferðaþjónustuaðila um menningar-, heilsu- og umhverfistengda ferðaþjónustu.

Nú þegar ferðamannastraumur hefur stóraukist til landsins er mikilvægt að fara í markvissa stefnumótun á Hafnarfirði sem áhugaverðum stað fyrir ferðamenn. Við eigum miklar útivistaperlur sem þarf að hlúa að og byggja upp. Upplandið okkar er mikill fjársjóður og Krýsuvíkursvæðið er orðið vinsæll áningarstaður ferðamanna á leið sinni um Reykjanes. Við teljum að skerpa mætti á ímynd bæjarins sem útivistarparadísar og byggja upp aðstöðu á þeim stöðum sem fólk sækir hvað mest.

Á næstu fjórum árum viljum við …

 • efla samvinnu bæjaryfirvalda við fyrirtæki og samtök í bænum sem tengjast menningu og ferðaþjónustu
 • styðja við frumkvöðlastarfsemi á sviði menningar og ferðaþjónustu
 • efla markaðssetningu og upplýsingagjöf til ferðamanna
 • skýra betur hlutverk menningar- og ferðamálanefndar og gefa henni aukið vægi
 • skipa aftur menningarfulltrúa hjá Hafnarfjarðarbæ og skoða skipun ferðamálafulltrúa
 • endurvekja fjölmenningarhátíð, sem gæti orðið hluti af Björtum dögum
 • stuðla að frekari uppbyggingu á Flensborgarhöfn
 • listaverkavæða bæinn – sem bæði fegrar og gerir list sýnilegri almenningi
 • setja stefnu um AirBnB í samstarfi við Reykjavíkurborg
 • huga að stað fyrir ný tjaldstæði
 • bæta aðstöðu við Hvaleyrarvatn
 • bæta sjósundsaðstöðu í bænum
 • bæta göngustígakerfi og aðstöðu í upplandi bæjarins