Lýðræði og stjórnsýsla

Lýðræði og stjórnsýsla

Ein af grunnstoðunum í stefnu Samfylkingarinnar er áherslan á lýðræði og vönduð vinnubrögð í stjórnsýslunni. Lýðræði er meira en kosningar á fjögurra ára fresti. Í því felst jafnframt möguleiki íbúanna á að hafa áhrif á milli kosninga.

Á árunum 2002-2014, var Hafnarfjörður leiðandi á meðal sveitarfélaga í lýðræðismálum og nýsköpun í stjórnsýslu. Á þessum árum voru stigin stór skref til aukinnar þátttöku íbúanna í mikilvægum ákvörðunum.

Ákvæði um að leggja beri stór mál í dóm kjósenda var bundið í samþykktir bæjarins árið 2002. Jafnframt var bæjarbúum tryggður réttur til að krefjast atkvæðagreiðslu um einstök mál.

Íbúalýðræði byggir þó ekki eingöngu á möguleika á að kjósa um mál á milli sveitarstjórnarkosninga. Það byggir ekki síður á samráði við íbúana áður en ákvarðanir eru teknar.

Á árunum 2002-2014 var komið á fót Öldungaráði, Ungmennaráði og notendaráði fatlaðs fólks. Önnur sveitarfélög fylgdu í kjölfarið. Nú hefur einnig verið stofnað fjölmenningarráð skipað íbúum af erlendum uppruna sem er bæjaryfirvöldum til ráðgjafar.

Markviss stjórnsýsla felst m.a. í því að mikilvægir málaflokkar séu staðsettir þannig í stjórnsýslunni að það sé tryggt að um þá sé fjallað faglega og af ástríðu og þeim sé gefið nægilegt rými.

Það er nauðsynlegt að stefnumótun til framtíðar og forgangsröðun framkvæmda sé ákveðin í sem mestu samráði við íbúa og hagsmunaaðila, og byggi á traustum upplýsingum.

Við viljum nýta upplýsingatækni og nýjar aðferðir við framkvæmd íbúakosninga til að gefa bæjarbúum kost á að hafa áhrif á fleiri sviðum.