Leikskóla í suðurbæ

Í upphafi þessa kjörtímabils gripu fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar til mikils niðurskurðar í leikskólamálum. Í stað þess að nýta tækifæri sem gáfust til lækkunar á inntökualdri var farið í hagræðingaraðgerðir og leikskóladeildum lokað. Inntökualdur var í raun hækkaður frá því sem tíðkast hafði þegar þessir flokkar tóku við. Eftir hávær mótmæli foreldra neyddust þau til að snúa af þeirri vegferð og lækka inntökualdurinn aftur niður í það sem verið hafði.

Leikskólaúrræðum lokað

Á fyrri hluta kjörtímabilsins var fyrst var ráðist að ungbarnaleikskólanum Bjarma við Smyrlahraun. Bjarmi var leiðandi á sínu sviði og einn fárra leikskóla sem frá upphafi uppfyllti lögbundin viðmið um lágmarksfjölda fagmenntaðra starfsmanna.

Þá voru einnig lagðar niður fimm ára deild við Hvaleyrarskóla og útideild leikskólans Víðivalla í Kaldársseli. Síðasta vígið var starfsstöð leikskólans Brekkuhvamms við Hlíðarbraut (Kató) sem var lokað þrátt fyrir hávær mótmæli foreldra og íbúa í Suðurbæ. Margítrekað var bent á að með þessu yrði Suðurbærinn það hverfi þar sem vantaði flest leikskólapláss.

Leikskóla í Suðurbæ

Leikskólarnir hafa ekki verið í forgangi hjá núverandi meirihluta. Lokun Kató var illa ígrunduð ákvörðun og byggði á forsendum sem stóðust ekki skoðun. Ábendingar okkar um alvarlegan skort á leikskólaplássum í hverfinu létu fulltrúar meirihlutans sem vind um eyrun þjóta og minnisblöðum sem studdu okkar málflutning var stungið ofan í skúffu.

Samfylkingin er stórhuga í leikskólamálum. Við ætlum að ráðast strax í byggingu leikskóla í Suðurbæ og opna Kató sem sérhæfðan ungbarnaleikskóla. Við viljum byggja leikskólana upp en ekki rífa þá niður.

 

Adda María Jóhannsdóttir

Skipar 1. sæti á lista Samfylkingarinnar