Fræðsla og menntun

Yfirlitssíða um stefnumál

Menntastefna Samfylkingarinnar byggir á gildum um jöfnuð, félagslegt réttlæti og mannréttindi. Skólarnir eru grunnstoð samfélagsins, þar sem við tryggjum börnum og ungmennum jöfn tækifæri til menntunar og þroska. Einnig virkjum við styrkleika þeirra, frumkvæði og sköpunarmátt. Þess vegna leggjum við áherslu á skóla sem byggja á lýðræði, mannréttindum og jafnrétti, skóla sem fagnar fjölbreytileikanum og rúmar öll börn. Samfylkingin leggur áherslu á samráð við fagfólkið sem starfar innan skólanna í allri ákvarðanatöku sem snýr að starfsemi skóla og vill stuðla að nýsköpun í skólastarfi.

Vellíðan barna og ungmenna í forgrunni

Mikilvægt er að stuðla að öflugu samstarfi milli allra skólastiga og góðu samstarfi heimila og skóla og annarra stofnana sem koma að þjónustu við börn. Vellíðan barna og ungmenna á að vera í forgrunni í allri stefnumótun bæjarfélagsins. Í þessu samhengi viljum við sérstaklega skoða að gera vinnudag barna samfelldan. Við viljum halda áfram með innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og flétta hann inn í alla stefnumótun bæjarfélagsins og vinna að því að Hafnarfjörður fái vottun UNICEF sem barnvænt samfélag.

Virkjum mannauðinn

Skólarnir okkar verði best efldir með því að virkja þann mannauð og sköpunarkraft sem býr í starfsfólki og nemendum hvers skóla. Þess vegna viljum við efla faglegt sjálfstæði skólanna og auka svigrúm þeirra til að móta eigin stefnu. Við viljum tryggja sterkt faglegt umhverfi sem laðar að gott starfsfólk á öllum skólastigum. Mikilvægt er að samhliða lækkun inntökualdurs á leikskóla að skapa starfsfólki góðar starfsaðstæður. Við leggjum áherslu á að fjölga fagmenntuðu starfsfólki innan leikskólans enda er leikskólinn fyrsta skólastigið.

Jöfn tækifæri

Efnahagur má aldrei ráða möguleikum til menntunar og liður í árangursríku skólastarfi er að tryggja öllum nemendum jöfn tækifæri. Skóli án aðgreiningar á að standa öllum til boða, skóli sem hvetur og styður alla nemendur með jöfnuð og umburðarlyndi að leiðarljósi. Nemendur eiga að fá að þroskast í öruggu umhverfi til að ná sínum besta mögulega árangri.

Stefnt að gjaldfrjálsum leik- og grunnskóla

Samfylkingin vill draga úr álögum á barnafjölskyldur. Þess vegna viljum við draga úr gjaldtöku og stefna að því að leik- og grunnskólar verði gjaldfrjálsir með öllu en það verður þó ekki að fullu gert nema með því að taka upp tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem við teljum nauðsynlegt að fari fram.  Við viljum leita allra leiða til þess að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla með því að lækka inntökualdur á leikskóla, styrkja umgjörð dagforeldrakerfisins, koma á fót ungbarnadagvistun og fjölga leikskólum. 

Fjárfestum í menntun til framtíðar

Samfylkingin leggur áherslu á að börnum standi til boða fjölbreytt val í skólastarfi m.a. með því að auka vægi list-, verk- og tæknigreina og lögð sé áhersla á fjölbreyttar kennsluaðferðir sem byggja á styrkleikum hvers og eins. Sveigjanleiki er mikilvægur í skólastarfi til þess að undirbúa nemendur undir þá tæknibyltingu sem samfélagið stendur frammi fyrir og í því samhengi þarf að leggja áherslu á tölvufærni og tækninám ásamt því að örva skapandi og gagnrýna hugsun.

Skólar í Hafnarfirði eiga að vera í fremstu röð.

Á næstu fjórum árum ætlum við að:

 • lækka inntökualdur barna á leikskóla,
 • fjölga leikskólum og koma á fót ungbarnadagvistun sem mætir þörfum barna í bið eftir leikskólaplássi,
 • bæta kjör og starfsumhverfi leikskólakennara annars starfsfólks leikskóla ásamt því að auka tækifæri til menntunar og starfsþróunar,
 • hlúa að starfsemi dagforeldra, auka samvinnu við þá og efla umgjörð þjónustunnar til þess að mæta þörfum barna í bið eftir leikskólaplássi,
 • halda áfram að efla og þróa starfsemi Brúarinnar sem hefur sannað gildi sitt,
 • halda áfram að efla hinsegin fræðslu og efla stuðning við hinsegin börn og transbörn innan skólakerfisins,
 • auka kynfræðslu og fræðslu um samskipti kynjanna, og fræðslu um jafnrétti og mannréttindi,
 • auka aðgang skóla og starfsmanna þeirra að hvers kyns ráðgjafaþjónustu og efla enn frekar faglega þjónustu fræðsluskrifstofu,
 • efla skapandi greinar og hreyfingu í leikskólum m.a. með íþrótta- og myndlistakennslu,
 • fjölga valgreinum fyrir nemendur, sérstaklega á unglingastigi,
 • tryggja gott og faglegt umhverfi sem laðar að öflugt starfsfólk á öllum skólastigum,
 • taka strax upp viðræður við Verkalýðsfélagið Hlíf um að bæta kjör ófaglærðs starfsfólks til jafns við nágrannasveitarfélögin,
 • vinna að leiðum til að bæta starfsaðstæður á leik- og grunnskólum og leita leiða til að draga úr álagi á starfsfólk,
 • efla samstarf heimila og skóla og styrkja Foreldraráð Hafnarfjarðar í sessi,
 • tryggja aukið sjálfstæði skóla og svigrúm þeirra til að móta sína eigin stefnu og stuðla að auknu nemendalýðræði,
 • auka svigrúm og fjölbreytni í skólastarfi svo mæta megi styrkleikum og áhuga hvers og eins með áherslu á skapandi greinar, list-, verk- og tæknigreinar og að efla frumkvöðlamennt,
 • hefja strax undirbúning byggingar leikskóla í Suðurbæ (Öldutúnsskólahverfi),
 • efla geðheilbrigðisþjónustu og forvarnir með auknu aðgengi að sálfræðiþjónustu, náms- og starfsráðgjöf,
 • huga sérstaklega að móttöku og kennslu nemenda með annað móðurmál en íslensku þar lögð er áhersla á móðurmálskennslu og íslenskukennslu,
 • efla stuðning við foreldrar og forráðamenn og ekki síst foreldra og forráðamenn nemenda með annað móðurmál en íslensku,
 • vinna að því að auka lýðræðisvitund barna og ungmenna,
 • móta forvarnarstefnu og auka forvarnarfræðslu innan skóla og félagsmiðstöðva,
 • styðja við og efla starfsemi Ungmennahúss í Hamrinum,
 • sjá til þess að öll börn og unglingar hafi aðgang að ávaxta- og grænmetisbita og hollum og næringarríkum hádegisverði,
 • lækka gjaldtöku fyrir mat í skólum með því m.a. að auka enn frekar systkinaafslætti,
 • stækka og efla tónlistarskóla Hafnarfjarðar, stytta biðlista í hann og flétta nám í Tónlistarskólanum inn í skóladag nemenda,
 • styðja við fullorðins fræðslu í bænum, m.a. með því að ýta undir tölvukennslu fyrir eldra fólk til að styðja við þátttöku þess og virkni í samfélaginu.

Yfirlitssíða um stefnumál

Create a website or blog at WordPress.com

%d bloggurum líkar þetta: