Lög Samfylkingarfélagsins í Hafnarfirði

1. gr.

Nafn félagsins er Samfylkingin í Hafnarfirði. Heimili þess og varnarþing er í Hafnarfirði.

2. gr.

Tilgangur félagsins er að vera upplýsandi og stefnumarkandi vettvangur í anda frelsis, jafnréttis, kvenfrelsis, félagshyggju og jafnaðar.

3. gr.

Meginmarkmið félagsins er:

 • að hefja sjónarmið jafnréttis, kvenfrelsis, félagshyggju og jafnaðar til vegs í þjóðfélaginu.
 • að tryggja samstöðu félagsmanna og bæjarbúa með því að standa fyrir skipulögðum umræðum um málefni bæjarins.
 • að vera bakhjarl og starfsvettvangur fyrir kjörna fulltrúa félagsins í bæjarstjórn, nefndum og ráðum bæjarfélagsins.
 • að standa fyrir stjórnmálaumræðu um þjóðmál svo og að taka þátt í störfum Samfylkingarinnar á landsvísu og kjördæmavísu í Suðvesturkjördæmi.
 • að tilnefna fulltrúa á landsfund Samfylkingarinnar og fulltrúa í kjördæmisráð Suðvesturkjördæmis skv. lögum beggja aðila.
 • að standa fyrir reglulegri útgáfu blaða og bæklinga og öðru kynningarstarfi til að koma stefnumálum og sjónarmiðum félagsins á framfæri.
 • að undirbúa framboð og velja frambjóðendur Samfylkingarinnar til bæjarstjórnar Hafnarfjarðar.
4. gr.

Aðild að félaginu geta átt einstaklingar sem hafa náð 18 ára aldri, sem aðhyllast stefnu þess og markmið og njóta þar fullra félagsréttinda, þar með talinn atkvæðisréttur og kjörgengi, enda skráðir í félagatal Samfylkingarinnar.

5. gr.

Stjórn félagsins skal skipuð að lágmarki 7 fulltrúum. Skal hún kjörin á aðalfundi til eins árs í senn. Formaður skal kjörinn sérstakri kosningu, en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund og velur úr sínum hópi varaformann, gjaldkera, ritara og meðstjórnendur. Stjórnin skal annast félagatal Samfylkingarinnar og skal félagatalið, eins og það liggur fyrir hálfum mánuði fyrir aðalfund, teljast rétt kjörskrá vegna kosninga á aðalfundi. Ef bæjarfulltrúar, einn eða fleiri, sem teljast félagar í Samfylkingunni í Hafnarfirði, óska eftir fundi með stjórninni, er henni skylt að verða við því.

6. gr.

Á aðalfundi ár hvert skal kjósa 3 manna kjörstjórn. Kjörstjórnin tekur við framboðum til stjórnar og gerir tillögur um fólk í stjórn sbr. 5. gr. Sama á við um skoðunarmenn reikninga. Kjörstjórnin sér um framkvæmd á kosningu stjórnar, varastjórnar og skoðunarmanna reikninga í samráði við fundarstjóra. Hún hefur úrskurðarvald um allt sem varðar þessar kosningar. Kjörstjórnin velur sér formann sem stjórnar starfi hennar.

7. gr.

Stjórnarfundir teljast löglegir ef þeir eru boðaðir með minnst sólarhrings fyrirvara og meirihluti aðalstjórnar er viðstaddur. Varamenn skal jafnan boða á stjórnarfund og taka þeir sæti í forföllum aðalmanna og öðlast þá á fundinum öll réttindi þeirra. Varastjórn hefur málfrelsi og tillögurétt á stjórnarfundum. Stjórn Ungra Jafnaðarmanna Í Hafnarfirði, stjórn 60+ í Hafnarfirði og stjórn Kvennahreyfingarinnar í Hafnarfirði tilnefni hvert sinn fulltrúa sem seturétt eigi á stjórnarfundum með málfrelsi og tillögurétti. Haldin skal fundargerð á stjórnarfundum og allar samþykktir og ákvarðanir stjórnar færðar í gjörðarbók.

8. gr.

Félagið skal innheimta hóflegt stuðningsgjald sem ákveðið er á aðalfundi til eins árs í senn. Hver nýkjörin stjórn gerir starfsáætlun fyrir komandi starfsár félagsins, þar með talin fjárhagsáætlun um fyrirhugaðan rekstur þess og tilnefnir í þriggja manna kynningarnefnd sem skal hafa umsjón með kynningarstarfi og reglulegri útgáfu félagsins. Áætlanir þessar skulu taka mið af samþykktum aðalfundar og vera kynntar og staðfestar á félagsfundi eigi síðar en þremur mánuðum eftir aðalfund.

9. gr.

Meirihluti stjórnar skuldbindur félagið með bókaðri ákvörðun á stjórnarfundi. Gjaldkeri er prókúruhafi á reikninga félagsins og skal hann árita alla reikninga og önnur útgjöld félagsins áður en greiðsla fer fram. Samþykki gjaldkeri ekki ráðstöfun stjórnar á fjármunum félagsins skal þegar í stað boða til félagsfundar og ákvörðun stjórnar borin undir hann.

10. gr.

Stjórnin boðar til félagsfunda og skulu þeir boðaðir með minnst þriggja daga fyrirvara. Stjórn er skylt að boða til fundar ef minnst 20 félagsmenn senda um það skriflegt erindi til stjórnar og tilgreina erindið. Félagsfundir fara með æðsta vald félagsins milli aðalfunda.

11. gr.

Á starfstíma bæjarstjórnar skal stjórn félagsins tryggja að boðað verði til reglulegra bæjarmálafunda með bæjarfulltrúum og nefndafulltrúum fyrir hvern bæjarstjórnarfund. Stjórn félagsins skal setja reglugerð um bæjarmálaráð og starfsemi þess og þarf að staðfesta reglugerðina á félagsfundi. Með sama hætti er stjórn heimilt að setja reglugerðir um aðra starfsemi félagsins.

12. gr.

Aðalfund félagsins skal að jafnaði halda í febrúarmánuði ár hvert og skal hann boðaður með minnst 10 daga fyrirvara með netpósti og í fjölmiðlum. Í fundarboði komi fram dagskrá fundar og hvatning til félaga um að koma til kjörstjórnar í tæka tíð væntanlegum framboðum til þeirra starfa sem kjósa skal í á aðalfundi. Til aukaaðalfundar skal boða ef þriðjungur félagsmanna krefst þess. Stjórn er einnig heimilt að boða til aukaaðalfundar liggi mikið við. Reikningsár er frá 1. janúar til 31. desember ár hvert. Um aukaaðalfundi gilda sömu reglur og um aðalfundi. Fastir liðir aðalfundar skulu vera:

 • Skýrsla stjórnar og nefnda eftir því sem við á.
 • Lagðir fram reikningar
 • Lagabreytingar
 • Ákvörðun stuðningsgjalds
 • Kosning formanns
 • Kosning stjórnar
 • Kosning tveggja skoðunarmanna
 • Kosning kjörstjórnar
 • Lögð fram greinargerð um starfsemi og afgreiddir endurskoðaðir reikningar Húsfélags Samfylkingarinnar í Hafnarfirði, sbr. 6. gr. í samþykktum fyrir Húsfélag Samfylkingarinnar í Hafnarfirði. Jafnframt, þegar það á við: Kosning og breytingar á samþykktum Húsfélagsins, sbr. 4. og 8. gr. samþykktanna.
 • Önnur mál
13. gr.

Lögum félagsins má aðeins breyta á aðalfundi, enda sé rétt til hans boðað og 2/3 fundarmanna samþykki breytinguna. Tillögur um lagabreytingar skulu berast stjórn félagsins eigi síðar en tveim vikum fyrir áætlaðan aðalfund og þær sendar út með fundarboði.

14. gr.

Félaginu verður einungis slitið ef tillaga þess efnis berst stjórn félagsins með eins mánaðar fyrirvara fyrir aðalfund. Skal hún þá kynnt félagsmönnum með a.m.k. hálfs mánaðar fyrirvara fyrir næsta aðalfund þess. Til þess að slíta félaginu þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða á tveimur fundum og skal sá fyrri þeirra vera aðalfundur. Eigi skal líða skemmri tími en 6 vikur milli fundanna og eigi lengri en þrír mánuðir.

15. gr.

Lög þessi taka þegar gildi

 

Svo samþykkt á aðalfundi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði, 9. apríl 2018