Alvöru endurbætur í Suðurbæjarlaug

„Suðurbæjarlaug er komin á tíma og þar þarf að ráðast í gagngerar endurbætur. Það fjármagn sem settur hefur verið í viðhald þar síðustu ár hefur verið af skornum skammti og nú er einfaldlega kominn tími á að endurnýja margt í lauginni og uppfæra.“

Samfylkingin í Hafnarfirði hefur það á stefnuskrá sinni að auka opnunartíma sundlauga í Hafnarfirði til samræmis við nágrannasveitarfélögin og gera átak í viðhaldi og endurbótum í sundlaugum bæjarins. Sigrún Sverrisdóttir skipar þriðja sætið á lista Samfylkingarinnar og hún segir ekki lengur hægt að láta laugarnar sitja á hakanum í viðhaldi og nauðsynlegum endurbótum.

„Við eigum frábærar sundlaugar og Hafnfirðingar eru duglegir að fara í sund. Þess vegna viljum við nýta laugarnar okkar sem best og tryggja að aðbúnaðurinn í þeim og þjónusta sé eins góð og mögulegt er.“

Tímabært að ráðast í endurbætur

„Suðurbæjarlaug er komin á tíma og þar þarf að ráðast í gagngerar endurbætur. Það fjármagn sem sett hefur verið í viðhald þar síðustu ár hefur verið af skornum skammti og nú er einfaldlega tímabært að endurnýja margt í lauginni og uppfæra. Þess vegna ætlum við að setja það verkefni í forgang. Auk þess að fara í töluverðar endurbætur á Ásvallalaug en þar liggur fyrir umtalsverð viðhaldsþörf líka.“

Strandblak

„Við viljum meðal annars skoða allar góðar hugmyndir um hvernig við getum gert laugina og umhverfi hennar enn betra. Til dæmis viljum við skoða hvort hægt er að koma fyrir strandblakvelli í garði laugarinnar og nýta þannig svæðið enn betur til hreyfingar og útiveru fólks á öllum aldri. Sú hugmynd kom á sínum tíma frá hópi bæjarbúa en hefur einhverra hluta vegna ekki komist til framkvæmda þrátt fyrir jákvæða umsögn skipulagsyfirvalda.“

Sundhöll Hafnarfjarðar var fyrsta sundlaugin í Hafnarfirði. Í fyrstu var aðeins um útilaug að ræða við Krosseyrarmalir og var hún tekin í notkun árið 1943. Það var síðan árið 1953 sem Sundhöll Hafnarfjarðar var tekin í notkun eftir að byggt hafði verið yfir útilaugina.

Hugmyndasamkeppni um Sundhöllina

„Gamla Sundhöllin er svo alveg viðfangsefni út af fyrir sig en henni hefur ekki verið sinnt nægilega vel síðustu ár. Við viljum gjarnan fá arkitekta, hönnuði og bara alla sem áhuga hafa á framtíð Sundhallarinnar til að taka þátt í að móta framtíð hennar með okkur. Það hafa komið fram margar góðar hugmyndir á síðustu árum, t.d. um að opna útisvæðið svo útsýni fáist yfir sjóinn, en það vantar að setja hugmyndavinnuna í farveg. Við ætlum því að efna til hugmyndasamkeppni um framtíð laugarinnar og erum eiginlega viss um að út úr því muni koma eitthvað spennandi. „