Að njóta og lifa í núinu

Svava Björg Mörk doktorsnemi sagði skilið við gengdarlausa neysluhyggju og fann hamingjuna í einfaldleikanum. Bærinn okkar ræddi við Svövu um naumhyggjuna og hvernig hún getur nýst okkur í daglega lífinu og á sviði stjórnmálanna.

 

 

Hvers vegna ákvaðstu að breyta til og tileinka þér naumhyggju?

Ég er einn af stofnendum ungbarnaleikskólans Bjarma sem var starfræktur hér í Hafnarfirði í sjö ár og get með stolti sagt að þar átti sér stað einstaklega faglegt og metnaðarfullt starf. Eftir að núverandi meirihluti ákvað að slíta samtarfi við okkur kom tímabil óvissu í lífi mínu. Mér fannst ég ekki hafa stjórn á hvert ég væri að stefna. Ég sótti síðar um stöðu leikskólastjóra við leikskólann Bjarkalund og fékk hana. Í vetur kom upp sú staða að ég varð að draga úr því sem ég var að gera. Ég á fjögur börn, var komin í doktorsnám og fleira. Ég var allt í öllu og sló hvergi af. Ég hef lengi keyrt mig áfram á mikilli ferð. Ég efldist við hrósið um að ég væri svo dugleg og þess vegna urðu verkefnin fleiri og fleiri. Ég var komin á þann stað að ég var hætt að njóta lífsins og fór bara áfram á hnefanum. Eftir að hafa hugleitt hvað ég ætti að gera ákvað ég að nýta menntun mína, reynslu og áhuga í annað og sagði því upp stöðu minni. Þá hafði ég kynnst hugmyndafræði naumhyggjunnar og hún hjálpaði mér í að endurmeta hvað ég vil fá út úr lífinu.

Hvernig kynntist þú þessari hugmyndafræði?

Flestir sem þekkja mig vita að ég get verið mjög ýkt í öllu. Fyrsta skiptið sem við hjónin 543343_3232713211611_1234683807_nfórum erlendis t.d þá fórum við í borgarferð til Dublinar. Ég var með fyrsta greiðslukortið mitt og fékk samþykki eiginmannsins til að kaupa eins mikið og ég vildi. Ég sá ekkert af Dublin annað en verslunarmiðstöðina, við vorum í marga mánuði að borga ferðina og ansi margir ættingjar fengu jólagjafir það árið.
Sonur minn hefur hins vegar tileinkað sér lífsstíl naumhyggjunar í einhvern tíma og einn daginn sá ég auglýstan fyrirlestur um mínimalisma í kirkjunni minni. Ég ákvað að skella mér og bjóða syni mínum og eiginmanninum með mér. Þennan dag gerðist eitthvað. Ég áttaði mig á að ég notaði hluti, verkefni og vinnu til að fylla upp í tómarúm og sársauka innra með mér í stað þess að staldra við og leyfa sárum að gróa. Í framhaldi af því varð ég voðalega „dugleg“ að pakka saman óþarfa og gefa áfram.
Eftir að ná að staldra aðeins við fann ég samhljóm á milli lífssýnar minnar og naumhyggjunnar. Ég er enn á byrjendareit en hlakka til að vinda ofan af mér og draga úr neysluhyggjunni.

10406840_10204025261526751_6709934487864290827_n

Hvað er naumhyggja?

Hún hvetur mig til að draga úr neyslu og gegndarlausri neyslustýringu. Mín túlkun á naumhyggju er sú að við ættum ekki að kaupa og eiga meira en við þurfum. Að við ættum að spyrja okkur sjálf hvort við þurfum að nota hlutinn eða hvort hann veitir okkur ánægju. En naumhyggja snýst ekki bara um veraldlega hluti. Hún snýst líka um það sem er innra með okkur eins og hvernig við forgangsröðum í lífi okkar. Hún snýst í raun um að draga úr ofgnótt í hvaða mynd sem er.

Hvernig breyttist lífið í kjölfarið?

Ég er markvisst að reyna að vera meðvituð um ákvarðanir sem ég tek, ekki bara um 29187020_10212823744043315_5611351420486811648_ohvað ég kaupi heldur á öllum sviðum. Ég velti meira fyrir mér hvort athöfnin eða hluturinn veita mér gleði eða ánægju. Ef ekki þá þarf ég ekki á þeim að halda. Ég horfi ekki lengur á sjónvarp heldur sæki ég mér það sem ég vill horfa á. Með því dreg ég úr áhrifum auglýsinga sem eru út um allt. Það er svo furðulegt að þegar ég les Fréttablaðið þá er tilfinningin sú að ég bara verð að eignast bíl! Af hverju? Jú, það eru endalausar bílaauglýsingar og mikið af þeim er á heilsíðu hægra megin. Ég er einnig farin að velta fyrir mér „hraðvirkri tísku“ (fast fasion) og „hægvirkri tísku“ (slow fasion), þ.e. að kaupa ekki ódýran fatnað sem endist stutt og velja gæði fremur en magn. Ég velti fyrir mér hvernig framleiðslan á bak við hlutinn er. Ég er meira að segja farin að velta fyrir mér hvernig tannbursta ég kaupi, neyslumanneskjan sjálf sem var alveg úti að aka með umhverfissporin sín.

 

Hvaða áhrifum finnst þér naumhyggjan vera að skila í þínu lífi?

Mér finnst ég hafa meiri tíma til að sinna áhugamálum mínum. Sem dæmi hef alltaf haft brennandi áhuga á pólitík og nú er ég loks komin í framboð. Ég hef einnig meiri tíma til að njóta; njóta samvista við fjölskyldu, hitta vinkonur, lesa góðar bækur og prjóna. Ég geri eitthvað á hverjum degi sem veitir mér gleði og hamingju.
Hlutirnir verða einfaldari. Til dæmis þarf ég varla að taka til lengur þar sem hver hlutur á sinn stað og því er nóg að þrífa. Þvotturinn hefur minnkað úr nokkrum vélum á dag í að ég þvæ annan hvern dag.
Ég næ betur utan um líf mitt og þessi lífstíll á vel við mig. Ég er enn að kljást við ýmislegt tengt neysluhyggjunni eins og það að eiga ekki of mörg pör af skóm, þar er einhver veikleiki. Það sama á við með veski þó ég hafi ekki haft neina lönguna í að endurnýja þau núna. Og ekki má gleyma garninu, ég er nýbúin að uppgötva gúrmé handlitað garn sem fæst í flottum garnbúðum víðsvegar á Íslandi og erlendis þannig að ég þarf að beita mig hörðu að missa ekki stjórn á mér og fylla húsið af flottu garni.
En ég finn mikinn mun á mér. Sem dæmi, í síðustu ferð minni til Brighton, að í stað þess að verja stórum hluta tímans í verslunum sat ég fyrir utan pöbbinn með pepsí max og prjóna og naut lífsins.

Hvað myndirðu ráðleggja fólki sem hefur áhuga á þessari lífsspeki?

Það er mikilvægt að gera þetta á sínum forsendum. Ekki halda að það sé til einhver naumhyggjuhandbók sem segir þér hvernig þú átt að lifa eða framkvæma. Sumir vilja fara hægt í sakirnar, ég aftur á móti tek hlutina alla leið strax. Samanburður er óhollur því við getum ekki afritað líf annarra yfir í eigið og haldið um leið í frumeintakið af sjálfum okkar.

Nú ertu að fara af stað með fyrirlestra og ráðgjöf, segðu okkur frá því

Ég ætla að bjóða upp á örfyrirlestra um naumhyggju og svo tveggja tíma fyrirlestur og vinnustofu um hvernig við getum einfaldað líf okkar. Ég er einnig að fara af stað með fyrirlestra og vinnustofur inn í fyrirtæki/leikskóla og er aðeins byrjuð að bóka.

Hvernig geta stjórnmálin tileinkað sér naumhyggju?

Ég sé alls konar tækifæri til að draga úr álagi, leggja áherslu á samveru fjölskyldna og þá einna helst með styttingu vinnuvikunnar. Það er einnig kjörið tækifæri í samstarfi við fyrirtæki og aðrar stofnanir að opna skapandi efnisveitu (REMIDA) þar sem endurnýtanlegur efniviður er nýttur til sköpunar. 5 mínútna hverfið er mér einnig hugleikið, hverfi sem hvetur til þess að draga úr einkabílum og þá um leið sé ég mikilvægi Borgarlínunnar. Ég tel einnig að við ættum að byggja upp öruggan leigumarkað sem er ekki gerður út í gróðrastarfsemi heldur sem val fyrir fólk sem vill ekki eiga húsnæði og fyrir ungt fólk sem vill flytja að heiman. Ég er einnig talsmaður þess að við ættum að skipuleggja fleiri græn svæði sem hvetja til samvista fjölskyldna. Tökum leiksvæðin á Völlunum sem dæmi en þau eru ansi snauð og bjóða mörg hver ekki upp á að foreldrar setjist niður með bók og njóti sín á meðan börnin leika. Eins og gefur að skilja eru svo tengslin á milli umhverfisverndar og naumhyggju mikil. Með því að draga úr neyslu og draga úr hraðvirkri tísku í hvaða mynd sem hún birtist þá verða umhverfissporin okkar færri.

Eitthvað að lokum

Já, ég tel að tilgangur okkar hér á jörðinni sé að vera til staðar, njóta og lifa í núinu. Naumhyggjan hefur hjálpað mér við það.