Einka­væðingin „stór­kost­legt tæki­færi“


Þegar meirihluti Sjálfstæðis-og Framsóknarflokks í Hafnarfirði seldi 15.42% hlut Hafnarfjarðarbæjar í HS veitum seinni hluta árs 2020, þá sagði bæjarstjórinn, Rósa Guðbjartsdóttir, að þetta væri „stórkostlegt tækifæri“ og ekki síst vegna þess að flestir Hafnfirðingar væru svo illa upplýstir, að þeir vissu ekki einu sinni, að bærinn ætti þennan hlut. Það þyrfti að bjarga fjárhag bæjarins sem væri kominn í þrot eftir langvarandi óstjórn Sjálfstæðisflokksins. Kviku banka var falið að selja, gerður var leynisamningur við bankann og neitað að upplýsa hve mikið var greitt fyrir umsýsluna og söluna. Þá hafnaði meirihlutinn ítrekuðum kröfum íbúa, félagasamtaka og Samfylkingarinnar um íbúakosningu um söluna. Eftir söluna jókst hagnaður HS veitna um 384 m. kr. árið 2021 eða um 68%.

Súpum enn seyðið af fyrri einkavæðingu Sjálfstæðisflokksins

Þetta var ekki í fyrsta sinn sem Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkurinn einkavæðir opinbera innviði í Hafnarfirði. Í fersku minni er þegar flokkarnir saman í meirihluta einkavæddu á árunum 1998-2002 grunn- og leikskóla sem varð dýrkeypt fyrir Hafnarfjarðarbæ. Eftir stórsigur í kosningunum 2002 tókst jafnaðarmönnum snúa þessu við og koma skólastarfinu í réttan farveg. Enn situr bærinn uppi með háar leigugreiðslur af skólabyggingum sem er arfur frá þessu ævintýri Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks..

Íslandsbanki og HS veitur – sala af sama meiði

Hvergi var né er getið um einkavæðingu opinberra innviða í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði. En þetta er hjartans mál fyrir Sjálfstæðisflokkinn, ekki aðeins í Hafnarfirði, heldur á landsvísu, að koma vel reknum opinberum innviðum í samfélagsþjónustu í hendur braskara á opnum markaði. Það finnst þeim „stórkostlegt tækifæri“ fyrir flokkinn og vildarvini. Salan á Íslandsbanka og spillingin sem þar viðgengst staðfestir það. Salan á HS veitum er af sama meiði. Hafnfirðingar hljóta því að íhuga: Hvað ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að selja næst? Höfnina, vatnsveituna, frárennsliskerfið eða á kannski að taka annan snúning á grunn- og leikskólunum?

Hefjum sókn til velferðar

Það eru gömul sannindi og ný að jafnaðarmenn standa vörð um grunn- og samfélagsþjónustu í eigu bæjarbúa. Eflum ábyrga fjármálastjórn. Hvergi á höfuðborgarsvæðinu er skuldsetning miðað við hvern íbúa meiri en í Hafnarfirði og þrátt fyrir söluna á HS veitum. Hér þarf að snúa við blaði. Hefja sókn til velferðar í Hafnarfirði og láta verkin tala. Það ætlum við jafnaðarmenn að gera með fólkinu í bænum. X-S að sjálfsögðu.

Höfundur skipar 5. sæti á lista Samfylkingarinnar í Hafnarfirði.

Greinin birtist á vísi.is 25. apríl 2022


Create a website or blog at WordPress.com

%d bloggurum líkar þetta: