Virðum sjálfs­ákvörð­­unar­rétt hvers og eins


Árni Rúnar Þorvaldsson skrifar

Öll þjónusta við fatlað fólk á að grundvallast á virðingu fyrir sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétti hvers og eins. Sveitarfélagið á að styðja fatlað fólk til sjálfstæðs lífs þar sem full þátttaka í samfélaginu er markmiðið. Fjölbreytt og sveigjanleg þjónusta sem er snið­­in að þörfum fatlaðs fólks er lykilforsenda þess að þetta markmið náist. Kerfið á vera til fyrir fólkið en ekki öfugt.

NPA samningar – mikilvægt þjónustuform

Á síðustu árum hefur not­endastýrð persónuleg aðstoð rutt sér til rúms í þjónustu við fatlað fólk, svokallaðir NPA samningar. Þeir styðja við sjálfstæði og sjálfsákvörð­unarrétt fatl­aðs fólks vegna þess að í þeim er það þjónustuþeginn sem stýrir þjónustunni. Sveitarfélagið á að styðja við NPA samningana og halda áfram að þróa þá í þágu fatlaðs fólks. Í Hafnarfirði hefur meirihluti Framsóknar- og Sjálf­stæð­isflokks greitt lægri jafnaðartaxta fyrir NPA samninga en gert er í ná­granna­sveitarfélögum. Það er óásætt­anlegt og því mun Sam­fylkingin breyta að loknum kosningum þegar við höfum tekið við stjórnar­taum­unum.

Alltof margt fatlað fólk á biðlista eftir húsnæði við hæfi

Húsnæði við hæfi eru grund­vallar­mannréttindi. Það er skylda sveitar­félags­ins að tryggja fötluðu fólki að­gang að húsnæði við hæfi. Alltof margt fatlað fólk í Hafnarfirði er á biðlista eftir húsnæði við hæfi. Einnig býr of margt fatlað fólk í óviðunandi húsnæði. Á næsta kjör­tímabili mun Sam­fylkingin ráðast í stór­átak í hús­næðismálum fatlaðs fólks, bæði í gegnum fjölgun félagslegra íbúða hjá bæjarfélaginu sem og í gegnum upp­byggingu íbúðakjarna fyrir fatlað fólk. Hér er um slíkt grund­vallar­mál að ræða að það þolir enga bið.

Árni Rúnar Þorvaldsson
skipar 3. sæti á lista Samfylkingarinnar í Hafnarfirði
fyrir sveitarstjórnar­kosningar 2022

Greinin birtist í Fjarðarfréttum 6. apríl 2022.


Create a website or blog at WordPress.com

%d bloggurum líkar þetta: