Mikilvægasta starf í heimi?


Gundega Jaunlinina skrifar

Það er skemmtilegt og gefandi að vinna í leikskóla. Það þekki ég af eigin raun, því ég starfaði í leikskóla í meira en 12 ár. Á sama tíma er það mikið ábyrgðarstarf. Vægi starfa er hins vegar ekki metið eftir ábyrgð og mikil­vægi, nema um sé að ræða ábyrgð á peningum.

Ég hef átt þrjú börn í leikskóla í Hafnarfirði, öll í sama skólanum. Þar er unnið frábært starf og starfsfólkið er í sérflokki. Það er samt ekki því að leyna, að það hefur hallað undan fæti, aðallega vegna undirmönnunar.

Hverjar ætli séu helstu ástæður þess að leikskólarnir eru undirmannaðir? Það er ekkert flókið. Launin eru of lág. Afleiðingarnar eru aukið álag á starfsfólkið. Þeir verða ergilegir út í vinnustaðinn og það sem verra er – við langvarandi álag dregur úr árvekni og getu til að mæta kröfum starfsins og þörfum barnanna okkar. Undanfarið hefur álag aukist vegna Covid, lang­tímaveikinda starfsfólks (vegna lang­var­andi álags) og umsaminnar vinnu­tímastyttingar. Vinnutíma­stytting­in er hugsuð til þess að auka möguleika fjölskyldna á samveru og hún verður mikið framfaraskref þegar hún nær til alls vinnumarkaðarins og festist í sessi. Það er hins vegar ótækt að ekki sé gert ráð fyrir afleysingu á móti þeim tíma þegar þeir sem eiga styttingu eru ekki í vinnunni. Þeir sem eru á staðnum, þurfa að leggja meira á sig – hlaupa hraðar.

Við getum gert betur, miklu betur. Við þurfum að laða að fleira starfsfólk, t.d. með því að greiða laun sem ekki eru langt á eftir nágrannasveitarfélögunum, eins og nú er. Þetta á að vera í forgangi.

Börnin okkar eiga það skilið!

Gundega Jaunlinina
skipar 12. sæti á lista Samfylkingarinnar í Hafnarfirði
fyrir sveitarstjórnar­kosningar 2022

Greinin birtist í Fjarðarfréttum 6. apríl 2022.


Create a website or blog at WordPress.com

%d bloggurum líkar þetta: