Engar efndir, en nóg af lof­orðum


Stefán Már Gunnlaugsson skrifar

Í ævintýrinu um Nýju fötin keisarans, þá var það barnið sem þorði að segja: „Nú, hann er þá ekki í neinu!”. Sú saga kemur upp í hugann, þegar lesið var viðtal við bæjarstjóra Hafnarfjarðar í Morgunblaðinu. Þar segir hún að mikið uppbyggingarskeið framundan í Hafnarfirði og tilgreindi nokkur svæði þar sem uppbyggingin á að fara fram. Ekkert hafi verið gert í þessum málum s.l. átta ár vegna þess að háspennulínur hafi hamlað á örlitlu svæði alls byggingarlandsins. Líkir bæjarstjórinn þessu við „hamfarir“ í löngu máli þar sem reynt er að afsaka klúðrið. Þær hamfarir, þau mistök voru hins vegar alfarið í ráðhúsi bæjarins, hjá meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Þau brugðust ekki við, höfðu engar aðrar áætlanir, en biðu þess er verða vildi í átta ár og lítið sem ekkert gerðist. Keisarinn var þá ekki í neinu, hann var allsber, eins og segir í ævintýrinu góða.

Íbúum fækkaði í fyrsta skipti í 80 ár

Afleiðingarnar blasa við í talningu Samtaka iðnaðarins, sem sýnir að minnst er byggt í Hafnarfirði miðað við nágrannasveitarfélögin. Það þýðir að fjölgun íbúa er langt undir áætlunum bæjarins. Á síðasta ári fjölgaði íbúum Hafnarfjarðar aðeins um 0,25% og árið 2020 fækkaði þeim í fyrsta skiptið í 80 ár. Þetta er uppskera Sjálfstæðisflokksins eftir átta ár í meirihluta. Samkvæmt miðspá húsnæðisáætlunar Hafnarfjarðarbæjar er einungis gert ráð fyrir 152 nýjum íbúðum á þessu ári. Er það hin gríðarlega mikla uppbygging sem bæjarstjórinn talar um? Þá hafa færri íbúðir verið keyptar af bænum inn í félagslega kerfið og ekki nýttar fjárheimildir til þess í fjárhagsáætlun. Það hefur laskað verulega félagslega þjónustu við þá sem minnst mega sín og biðlistarnir lengjast.

Allt þetta kjörtímabil höfum við í Samfylkingunni bent á þá alvarlegu stöðu sem er í Hafnarfirði vegna hægrar uppbyggingar nýs húsnæðis. Meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hefur kosið að stinga hausnum í sandinn í stað þess að horfast í augu við staðreyndir og ráðast með okkur í átak í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Það drukknar allt í orðagjálfri. Eina sem kemur svo frá meirihlutanum er að framundan er mikil uppbygging, einhvern tíma. Hvað á að segja það lengi?

Innantóm orð en engar framkvæmdir

Það stendur ekki á loforðum og allskonar fagurgala. Þannig hefur það verið allt kjörtímabilið og lengur. Fyrir síðustu kosningar, fyrir fjórum árum, voru sýndar fallegar myndir af svonefndu 5 mínútna hverfi uppi á Hrauni, sem átti að vera stóra málið í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á yfirstandandi kjörtímabili. Þar hefur ekki skóflu verið stungið í jörð ennþá – engin hreyfing.

Öll uppbyggingarsvæðin sem bæjarstjórinn talar um eru lítið annað en hugmyndir á blaði, enda eru engar lóðir til í Hafnarfirði. Það sagði bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Hafnarfirði í ræðu á Alþingi og ber sjálfur ábyrgð á ófremdarástandinu með Sjálfstæðisflokknum. Uppbygging íbúðarhúsnæðis og húsnæðismál eru velferðarmál. Afleiðing hægrar uppbyggingar eru að eftirspurn eykst og verð hækkar, sem lendir verst á fjölskyldufólki og fyrstu kaupendum.

Nýr meirihluti jafnaðarmanna forsenda bjartra tíma

Það er því rétt að framtíðin er björt í Hafnarfirði, en hjá nýjum meirihluta, nýjum stjórnendum í Hafnarfirði undir forystu jafnaðarmanna eftir bæjarstjórnarkosningarnar 14. maí. Þá verður ráðist í raunverulegt stórátak í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, m.a. með samstarfi við óhagnaðardrifin leigufélög, verktaka og einstaklinga þar sem áhersla verður lögð á fjölbreytt og hentugt húsnæði fyrir alla. Hér þarf skýra framtíðarsýn og að láta verkin tala. Tökum höndum saman um það.

Stefán Már Gunnlaugsson
skipar 5. sæti á lista Samfylkingarinnar í Hafnarfirði
fyrir sveitarstjórnar­kosningar 2022

Greinin birtist á Vísir.is 5. apríl 2022.


Create a website or blog at WordPress.com

%d bloggurum líkar þetta: