Verum saman í sókn


Guðmundur Árni Stefánsson skrifar

Það er mikill munur á því að koma hlutum í framkvæmd; klára málið og svo hins að langa til einhvers. Það er himinn og haf á milli þess að gera hlutina hratt og örugglega og svo þess að vilja einhvern tímann gera eitthvað.

Þetta er munurinn á aðkomu Jafnaðarmanna, Samfylkingarinnar í Hafnarfirði að brýnum verkefnum í Hafnarfirði og sitjandi meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. 

Við jafnaðarmenn ætlum í verkin og klára þau meðan núverandi stjórnendur síðustu átta ár, spá og spekúlera og verkefni sitja á hakanum.

Verkin sýna merkin

Við jafnaðarmenn munum einfaldlega láta verkin tala á öllum sviðum, þar sem þörf er á að taka til hendi. Hafnfirðingar munu strax verða varir við breytt verklag og endurbætt vinnubrögð að afloknum kosningum, þegar jafnaðarmenn verða kallaðir til starfa við stjórn bæjarins. Þar munu verkin sýna merkin fljótt og vel.

Við munum ekki víkjast undan erfiðum málum heldur finna á þeim lausn. Við munum ekki festast í endalausum undirbúningi, athugunum, endurskoðun og fálæti gagnvart hagsmunum hópa og einstaklinga í bænum okkar góða. Við jafnaðarmenn munum fara í málin og koma þeim áfram til afgreiðslu.

Við jafnaðarmenn göngum glöð og bjartsýn til komandi kosninga. Við erum mætt til leiks svo um munar og bjóðum fram breiðan og öflugan lista frambjóðenda af báðum kynjum, öllum aldri með fjölbreytta reynslu í farteskinu. 

Verum samferða

Okkar fólk er reiðubúið í verkin með bæjarbúum þar sem framsýni og verkgleði mun ráða ríkjum.

Vertu með okkur í endurbótunum, þar sem við gerum Hafnarfjörð að fyrirmyndarsveitarfélagi á sem allflestum sviðum. Meirihluti bæjarbúa eru jafnaðarfólk í hjarta. Við bjóðum alla velkomna í sóknina fyrir Hafnarfjörð. Verum samferða.

Nú er tækifærið. Notum það vel.

Guðmundur Árni Stefánsson
oddviti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði
fyrir sveitarstjórnar­kosningar 2022


Create a website or blog at WordPress.com

%d bloggurum líkar þetta: