
Sameiginleg hugsjón okkar er að búa í fallegum bæ með öflugri þjónustu við íbúana. En reynslan sýnir að stöðnun fylgir Sjálfstæðisflokknum við völd í Hafnarfirði, enda er kjörtímabílið, sem nú er að ljúka, kennt við hin glötuðu tækifæri. Þetta hefur bitnað verst á fjölskyldufólki. Lokun leikskólaúrræða og háar álögur vitna um það. Þetta sýnir úttekt Samtaka atvinnulífsins, en þar kemur fram að skattheimtan hækkaði á síðasta ári og það er dýrast að búa í Hafnarfirði miðað við nágrannasveitarfélögin. Í samanburði við fjárhagsstöðu tólf stærstu sveitarfélaga landsins, þá er Hafnarfjörður í neðsta sæti og fær falleinkunn í úttektinni. Sama á við um þjónustukönnun Gallups sem gerð var árið 2017 um ánægju með skipulag grunn- og leikskóla, en þar kemur Hafnarfjörður illa út í samanburði við önnur bæjarfélög, enda ekki að undra í ljósi glundroðans í meirihlutanum undanfarin misseri.
Íbúðauppbygging í hægagangi
Meirihlutinn undir stjórn Sjálfstæðisflokksins ber ábyrgð á því að hvergi hefur verið minna byggt af íbúðarhúsnæði og ekki hefur verið komið til móts við unga fólkið sem þarfnast ódýrari og fjölbreyttari húsnæðisúrræða. Í þessum efnum ríkir stöðnun. Einnig er fólksfjölgun minnst í Hafnarfirði á stór-Hafnarfjarðarsvæðinu og sérsniðnar skattalækkanir Íhaldsins gagnast aðeins hinum efnameiri. Þrátt fyrir auknar tekjur umfram áætlanir, þá hefur svigrúmið ekki verið nýtt til að lækka álögur á fjölskyldufólk.
Skýrir valkostir
Í kosningunum þá eru í raun aðeins tveir valkostir í boði. Áframhaldandi stöðnun undir stjórn Sjálfstæðisflokksins eða uppbygging til framtíðar með fólki í forgang með Samfylkingunni. Til þess að snúa af braut stöðnunar og glundroða verður Samfylkingin að fá gott brautargengi í kosningunum og verða kjölfesta við stjórn bæjarins. Gerum Hafnarfjörð aftur að fyrirmyndarbæ fyrir fjölskylduna með Samfylkingunni.
Stefán Már Gunnlaugsson
skipar 4. sætið á lista Samfylkingarinnar í Hafnarfirði