
Undanfarin ár hefur erlendum ríkisborgurum fjölgað hratt á Íslandi og einnig í Hafnarfirði. Gott ástand á íslenskum vinnumarkaði hefur kallað á erlent vinnuafl. Á höfuðborgarsvæðinu telja erlendir ríkisborgarar rúmlega 11% mannfjöldans en hæst er hlutfallið á Suðurnesjum þar sem hlutfall erlendra ríkisborgara er u.þ.b. 16% (2016).
Í Hafnarfirði eru erlendir ríkisborgarar um 3000 og koma þeir flestir frá Póllandi en einnig kemur stór hópur frá Litháen. Fjölmenning í Hafnarfirði kallar á ákveðna þjónustu sem ekki má sniðganga og verður að sinna. Má þar m.a. nefna tungumálakennslu (íslensku sem og móðurmál) fyrir börn af erlendum uppruna og ráðgjöf og fræðslu fyrir nýja íbúa af erlendum uppruna.
Víða erlendis tíðkast það að þegar erlendir ríkisborgarar flytja í bæjarfélög sé þeim úthlutaðurþjónustufulltrúi sem sér um þeirra mál frá a til ö. Allir erlendir ríkisborgarar sem búa í Hafnarfirði eru hluti af samfélaginu og þeir eiga rétt á þjónustu sem þeir vita því miður oft ekki af.
Erlendir íbúar í Hafnarfirði auðga mannlífið, taka oft virkan þátt í menningar- og tómstundastarfi og sinna auk þess mikilvægum störfum í bæjarfélaginu. Við Hafnfirðingar ættum að vera stoltir af því fjölþjóðlega samfélagi sem við búum í og setja alla íbúana í forgang – fólkið í forgang.